fimmtudagur, júní 09, 2005

Glerveggurinn

Glerþakið

Glerþakið er hún nefnd þessa ósýnilegu hindrun í vegi þess að konur nái á toppinn á sínum vinnustöðum. Ég hélt því einhvern tímann fram í grandaleysi að menntaður og klár einstaklingur þyrfti ekki að láta neitt stöðva sig annað en eigið val. En mér var fljótt gert ljóst að þetta væri ekki spurning um einstaklinga heldur konur sem undirokaðan hóp og rótgróin einkenni á karllægu samfélagi. Það snýst sem sé ekki um ábyrgð hvers einstaklings fyrir sig að sækja þann rétt og þau tækifæri sem viðkomandi ber með réttu, heldur ábyrgð hópanna, karla og kvenna, gott ef ekki þjóðfélagsins í heild. Og eftir því sem konur eru meira menntaðar og nær miðbæ Reykjavíkur, því meiri líkur virðast vera á því að þær verði fyrir barðinu á hróplegu misrétti feðraveldisins.

Glerveggurinn
Ef við látum hins vegar þessi alvarlegu vandamál háskólakvennanna liggja á milli hluta í smá stund, þá vaknar hjá mér önnur spurning.
Hvað er það sem stoppar konur í því að fara úr húsi og setjast upp á malbikunarvél, að vinna fyrir sér með skóflu og haka, að sækja sorp heim að húsvegg til að sjá sér farborða, að skera fisk úr netum, að leggja línur og rör í skurði, að fóðra ræsi undir götunni eða að slá upp steypumótum klædd í útigalla? Hvað hefur komið í veg fyrir að konur fylli þessi störf líkt og þær eru að fylla bekki háskólans? Þessi hindrun telst líklega frekar veggur en þak, en sá veggur er vísast líka ósýnilegur og hlýtur því að kallast glerveggur.

Þær háskólamenntuðu konur, og vissulega nokkrir karlar, sem eru svo dugleg að nota orð eins og “kynjuð orðræða” og “kynjagleraugu” hafa ekki rætt þennan glervegg svo ég muni. Varla merkir jafnrétti að konur sæki einungis fram á sumum stöðum en ekki öðrum?

Mörg smörrebrödsráðstefnan hefur verið haldin um glerþakið, en enn hef ég ekki séð svo mikið sem einn súpufund um glervegginn. Er ekki örugglega von á slíkum fundi?

Og ég bíð…
Og nú hef ég skrifað þetta bréf og bíð bjartsýnn eftir svari. Vinur minn, sem er svartsýnismaður, á hins vegar alls ekki von á því að ég fá málefnalegt svar við þessari hugleiðingu. Hann býst frekar við því að mér verði sagt að ég skilji ekki umræðuna, ég sé að tala á röngum forsendum, ég sé ekki með rétt gleraugu, ég sé hluti af gamla feðraveldinu eða með öðrum orðum að mér verði sagt með einhverjum hætti; skiptu þér ekki af þessu og láttu fagmennina um að ræða þetta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home