Skyndihjálp og skynsemi
(Gamall póstur úr tuðskúffunni sem fór aldrei neitt á sínum tíma)
Tvisvar á stuttum tíma les ég í blöðum að kornung börn hverfi á bólakaf í vatn eða sjó.
Ég er glaður vegna þess að börnin eru á lífi og ég vona sannarlega að þau jafni sig að fullu. Sem faðir geta ég gert mér í hugarlund þá angist og kvöl sem fylgir því að óttast um líf barnsins síns. Ég vil ekki meiða foreldrana með þessu bréfi og ég viðurkenni að ég veit ekki hverjar aðstæður voru umfram það sem nefnt var í fréttinni. En það var einmitt fréttin sem varð til þess að ég skrifa þetta bréf því mér finnst eins og skautað hafi verið fram hjá afskaplepa mikilvægu atriði í þessum atburðum. Í báðum tilfellum fær fullorðið fólk lof og prís fyrir að bjarga börnum – en hvergi er á það minnst að það hafi jafnframt verið fullorðið fólk sem stefndi lífi barnanna í hættu með sínum ákvörðunum og athöfnum. Skyndihjálparkunnátta er góð og blessuð en það er fátt sem kemur í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi og það er fátt í fréttinni sem bendir til þess að hún hafi verið við stjórnvölinn.
Það er munur á því að koma í veg fyrir slys eða að koma í veg fyrir möguleikann á slysi. Í öðru tilvikinu treystir þú á að aðgát og nærvera komi í veg fyrir slys, en í hinu tilvikinu skipuleggur þú aðstæður og athafnir á þann veg að það skapist ekki hætta. Ef börn leika sér á eldhúsgólfinu og þú þarft að færa súpupottinn á milli borða er tvennt til ráða. Þú getur fært pottinn og reynt að gera það varlega. Þá ertu að reyna að koma í veg fyrir slys. En þú getur líka fjarlægt börnin úr herberginu og síðan fært pottinn. Þá hefur þú komið í veg fyrir möguleikann á slysi.
Enginn ætlar sér að hætta lífi barnanna sinna, ekki frekar en það er markmið einhvers að pakka börnunum sínum inn í bómull og leyfa þeim ekki að reyna sig á neinn hátt. Einhvers staðar þarna á milli er gullinn meðalvegur sem hlykkjast eftir mismunandi aðstæðum og atburðum. Umferðarreglurnar eru því ekki altækar á þessum vegi en leiðarljósið hlýtur að vera heilbrigð skynsemi.
En ég ætti samt að drífa mig á skyndihjálparnámskeið.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home