föstudagur, júní 17, 2005

Of miklar og óumbeðnar upplýsingar

Sumt fólk á það til að veita manni of miklar og óumbeðnar upplýsingar. Þar á ég við of miklar upplýsingar í líkingu við sundurliðarar hægðafregnir ef þú slysast til þess að spyrja einhvern hvernig hann hafi það svona almennt séð. Og síðan eru óumbeðnar í þeirri merkingu að ég bað ekki um neinar upplýsingar en fæ þær samt. Þar í flokki fara nú fremst þau Tom Cruise annars vegar og eilífðarfíflið Paris Hilton hins vegar. Mér finnst eitthvað sjúklegt við það þegar Tom Cruise þarf að tilkynna mér það óumbeðið á vefmiðlinum mínum að hann hafi beðið Katie Holmes í Eiffelturninum um morguninn. Mér er alveg sama. Bara endilega Tom. Biddu hennar eða hverrar sem þér sýnist. Mér er alveg sama. Ég hafði einu sinni áhuga á því að sjá þig leika en sá áhugi fer dvínandi með hverri fréttinni sem ég séaf þér. Fíflið Tom Cruise er farinn að þvælast alvarlega fyrir leikaranum Tom Cruise og ég sé eiginlega ekki lengur í leikarann. Mér finnst einhvern veginn eins og einhver hafi verið að deila með mér ánægjulegri klósettferð þegar bónorð frá París er komið á morgunverðarborðið hjá mér í Reykjavík örskömmu síðar. Sumt á bara ekki erindi til allra. Þarf ég virkilega að segja eitthvað um Paris Hilton? Segir hún ekki allt sjálf? Ég endurtek bara þá hugmynd mína að markaðssetja Ísland sem "Paris Hilton Free Zone"! Hér væri allir miðlar ritskoðaðir, sjónvarpsstöðvar sendar út með töf til þess að klippa burt allar tilvísanir, myndir og komment um eða frá Paris Hilton. Ég er sannfærður um að fjöldi Bandaríkjamanna væri til í að eyða tveimur vikum eða svo á góðum stað þar sem þessu fyrirbæri mundi aldrei bregða fyrir. Aldrei.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home