þriðjudagur, júní 21, 2005

Nútímalistakenningin 80-18-2

Nú gefst mér tækifæri til þess að opinbera nútímalistakenninguna mína sem ég nefni 80-18-2.
Sú kenning er á þessa leið:

80% þjóðarinnar er sá hluti sem vill ekki skilja og hefur engan áhuga á að skilja nútímalist. Þessi 80% hrista einfaldlega hausinn ef nútímalist ber fyrir augu sem er sjaldan enda koma þessi 80% og nútímalist sjaldan fyrir á sömu stöðunum. Þessi 80% eru ekki einu sinni neitt sérstaklega að skilgreina fyrirbærið "list", hvað þá "nútímalist", það nýtur þess sem það vill njóta og skammast sín ekkert fyrir að hafa engan áhuga á hinu.

2% er sá hluti þjóðarinnar sem lifir og hrærast í nútímalist, fer á sýningar, iðkar nútímalist, klingir glösum, veitir styrki, þiggur styrki, fer á tvíæringa, notar orð eins og tvíæringur, talar um nútímalist, skrifar um nútímalist, kennir nútímalist og lærir nútímalist. Það skoðar gubb og kúk og sæði úr öðru fólki og gengur ekki út í sjálfsvarnarskyni heldur segir "athyglisvert" hvert við annað, það skoðar olíutunnur með steypu í og segir "ögrandi", það hittir galleríista og pómó er ekki skammaryrði heldur gæluorð í þeirra eyrum.

18% er sá hluti þjóðarinnar sem telur sig kunna að meta list, vill njóta lista, hefur ekkert á móti því að láta ögra sínum viðteknu skoðunum og telur sig víðsýnt og menntað. En þessi 18% eru jafnframt sá hópur sem ætti að segja, en þorir ekki það ekki, að keisarinn sé ekki í neinum fötum. Þessi 18% þora ekki að missa það út úr sér að þetta sé rugl, bull og þvæla, að skítur annarrar manneskju sé úrgangur en ekki list, að keisarinn sé ekki aðeins í engum fötum heldur sé hann farinn að ganga örna sinn á almannafæri og kalla það list. Þau þora það ekki því þá kemur Stefán Jón Hafstein og segir að þau séu mestu plebbar sem hafa tjáð sig um list á Íslandi. Og þessi 18% vilja ekki vera plebbar, það eru bara þessi 80% sem eru plebbar. Ekki við. Við erum langskólagengin og menntuð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home