þriðjudagur, ágúst 30, 2005

"Þótt ég fyrirlíti skoðanir þínar..."

Íslenskir fjölmiðlar eiga oft erfitt með að setja staka atburði í þjóðfélaginu í stærra samhengi, hvað þá tengja þá stærri spurningum um lýðræði, lögfræði eða grundvallarmannréttindi.
Eitt slíkt dæmi eru viðbrögð lægst settu handhafa ríkisvaldsins við hinum og þessum mótmælum síðustu misseri eða ár hérlendis.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig erlendar löggur fást til þess að sveifla kylfum gegn friðsömum mótmælendum og berja þá meira og minna í spað, þrátt fyrir að af þeim stafi engin ógn. Þetta hefur sést í fréttamyndum frá Chile eða öðrum suður-amerískum bananalýðveldum í gegnum tíðina.
Nú er ég farinn að skilja þetta aðeins betur, vegna þess hvernig dagfarsprúðir íslenskir lögreglumenn haga sér við nokkra ræfilslega mótmælendur.
1. Mótmæli á 17. júní í miðbæ Reykjavíkur: " Það er ekki við hæfi að mótmæla á þessum degi! sögðu menn. 17. júní er afmælisdagur Jóns Sigurðssonar sem sagði hin fleygu orð Vér mótmælum allir. Alveg er ég viss um að Danir hafi sagt að það hafi ekki verið við hæfi að mótmæla á þeim stað og stund.
2. Falun Gong - lögreglan gerðist ansi útsjónarsöm við að finna nýjar leiðir fyrir kínverskan fjöldamorðingja - til þess að hann þyrfti ekki að sjá gula borða. Stakur lögregluþjónnn sló til mótmælenda sem frömdu þann glæp að líma fyrir munn sinn og halda höndum á loft í táknrænum mótmælum.
3. Virkjun - hér byrjar ballið fyrir alvöru. Allt tiltækt lið á Austurlandi lagði niður löggæslustörf til þess að gera upptæka spreybrúsa og keðjur. Við tjaldbúðir voru þeyttar sírenur í morgunsárið, í bænum var mómælahippum á húsbíl veitt eftirför... og til hvers? Mótmæli eru ekki bönnuð á Íslandi, það er ekki bannað að hafa skoðun, það er heldur ekki bannað að hafa vitlausa skoðun og halda henni hátt á lofti. Það er ekki bannað að vera á móti Perlunni þótt búið sé að byggja hana.
4. Stjórnarráð - tveir piltar príla upp á þak og skipta um fána. Lögreglan getur ekki heldur stillt sig um að taka á þessu máli með allri þeirri taktvísi sem einkennir fíl í postulínsverslun. Þeir skemma þakið og beita mótmælendur harðræði - og kenna þeim svo um allt saman. Og svo kemur aðstoðarmaður ráðherra og spinnur einhverja skröksögu í fjölmiðla til að láta þetta líta ver út.

Caveat:
Þótt það ætti ekki að koma málinu við þá er líklega rétt í andrúmi dagsins að taka það fram að ég er ekki hliðhollur málstað þeirra sem mótmæla virkjun.

Samhengi
Það hræðir mig þegar ég sé hvað lögreglumenn og embættismenn eru illa að sér í grunnhugsun mannréttinda.
Nýskipaður forstjóri útlendingaeftirlits, sem þó er lögfræðingur, gengst undir skilgreiningu yfirvalda á því hvað er óæskileg hegðun borgaranna, skilgreiningu sem er ekki studd stjórnarskrá eða lögum, heldur persónulegum skoðunum valdhafa og þeirra stofnana. Og á grundvelli þeirra persónulegu skoðana beitir hún sínu embætti af fullum þunga. Það er valdníðsla.

Mér verður um og ó þegar ég sé þjónkunina birtast í svona smáum málum, því hvað gerist ef sitjandi valdhafar gengju lengra í skilgreiningu sinni á því hvað er óæskileg hegðun?
Hvað ef andstaða við kirkjuna yrði einn daginn skilgreind sem óæskileg hegðun? Þar væri meira að segja hægt að styðjast við vafasamt ákvæði í stjórnarskránni.

Ríkisvald verður alltaf að láta einstaklinginn njóta vafans. Vald ríkisins og hins opinbera er einfaldlega svo gríðarlegt í samanburði við einstaklinginn - og umboð ríkisins til þess að skipta sér af málum einstaklinga er á svo veikum grunni.

Embættismannakerfi Íslands hefur alltaf verið veikt, líklega vegna skorts á hefð. Menn hafa alltaf átt of mikið undir kjörnum fulltrúum og fulltrúum framkvæmdavalds, bæði almenningur og embættismenn. Þess vegna haf embættismenn ekki fastan grunn til að standa á, grunn sem er staðfastari en svo að ein ríkisstjórn til eða frá geti farið að hnika honum. Prinsíp eru nefnilega ekki til að hafa spari. Rétturinn til að tjá skoðanir sínar verður að vera heilagur á landinu, og við verðum einfaldlega að taka fórnarkostnaði við slíkt lýðfrelsi, þótt það séu fimmtán mínútur af röngum fána á Stjórnarráðinu eða hippalegar tjaldbúðir á Austurlandi með spreybrúsum og keðjum. Eignaskemmdir á að sjálfsögðu að sækja til saka - en það segir mér engin að það séu mannslíf í hættu þótt Englendingur járni sig við payloader eða búkollu.

Ég veit alveg að íslensk lögga er ekki sveiflandi óeirðakylfum og berjandi menn til blóðs. En hafandi þá trú á prinsippum sem ég hef, þá læðist að mér sú óþægilega tilfinning að þetta sé ekki stigsmunur, heldur eðlis, að leggja mótmælendur í einelti, þeyta sírenur að morgni og dingla handjárnum framan í fólk sem hefur "annarlegar skoðanir". Þetta eru byrjunareinkenni valdníðslu. Og það stríðir gegn minni réttarvitund, sama hversu heimskulegum skoðunum hún kann að beinast.
Tilgangurinn helgar aldrei meðalið. Það er mitt prinsípp.

Eða þarf lögreglan að fara að velja sérstakar leiðir fyrir Halldór til þess að hann þurfi ekki að horfa upp á einhvern sem er ósammála honum?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home