Fjölmiðlar falla á Durex prófinu
Reglulega er lagt próf fyrir íslenska fjölmiðlamenn, þegar Durex sendir út fréttatilkynningar um kynlífskönnun sem kennd er við smokkaframleiðandann. Á hverju einasta ári verða síðan íslenskir lesendur eða áhorfendur vitni að því þegar íslenskir miðlar falla unnvörpum á þessu prófi.
Í fyrra var sagt frá því að íslenskar konur ættu kvenna mest af hjálpartækjum ástalífsins. Í ár hefur þegar verið sagt frá því að fjörutíu prósent landsmanna haldi framhjá maka sínum, nær helmingur landsmanna eigi klámmynd í fórum sínum og að Íslendingar byrji fyrstir allra þjóða að sofa hjá. Miðlar og þættir leggja síðan út af þessum niðurstöðum, sérfræðingar eru kallaðir til svo fást megi skýringar á þeim, hagyrðingar hringja inn blautlegar tækifærisvísur og hlustendur hringja inn með vandlætingartón eða smástelpuflissi yfir því að geta sagt titrari í beinni útsendingu.
Prófið er fólgið í því að átta sig á því að þessi skemmtilega kynningaraðferð Durex hefur ekkert með staðreyndir að gera og segir okkur jafn lítið um kynlíf Íslendinga og Passíusálmar Hallgríms. Þeir sem taka þátt í könnuninni eru nefnilega fólk sem af eigin hvötum fer á vef smokkaframleiðandans og fyllir út könnunina og segir sjálft til um aldur, kyn og aðrar mikilvægar staðreyndir. Fagmenn í skoðanakönnunum hrista hausinn og dæsa en hafa fyrir löngu gefist upp á því að vekja athygli á kolvitlausri aðferðafræði.
Langflestir fjölmiðlamenn vita betur en svo að það sé eitthvað að marka þessa könnun. En freistingin til að birta krassandi tölur og kitlandi hálfklám er bara of mikil til að fjölmiðlungar standist hana og skottuvísindin eru því birt án minnsta fyrirvara um uppruna eða áreiðanleika.
Niðurstaðan í hæfnisprófi Durex fyrir íslenska fjölmiðla virðist vera þessi: Fjórða valdið, sem tekur sjálfstæði sitt og óskeikulleika oft ansi hátíðlega, má fara með staðlausa stafi og hreint skrök, ef það snýst um kynlíf og að hægt sé að flissa.
Eru þá ekki bara allir sáttir?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home