þriðjudagur, maí 22, 2007

Að greina sig frá almúganum...

Morgunblaðið á netinu er að verða virðulegur fréttamiðill í samanburði við pappírsútgáfuna sem verður alltaf fáránlegra og fáránlegra í máttvana tilraunum sínum til að hafa áhrif í þjóðfélaginu.

En rétt um það leyti sem ég hélt að mbl.is ætlaði að skáka stórabróður rak ég augun í þessa yndislega illa þýddu mola sem kallast stjörnuspeki á vef mbl.is (Athugið að mbl.is er næst á eftir mbk.is í stafrófsröð. Athyglisvert! Hvað skyldi leynast á mbk.is?)

Tvö sýnishorn úr stjörnuspekinni:

FISKAR 19. febrúar - 20. mars
Þvert á móti því sem margir vilja halda fram þá geturðu haldið kökunni og borðað hana líka. Já, með því að borða hana ekki alla í einu. Sama á við um aðrar freistingarnar sem þú vilt ná valdi yfir.

Og þetta:
VATNSBERI 20. janúar - 18. Febrúar
Greindu þig frá almúganum með því að koma með yfirlýsingu sem sker sig úr. Skapaðu heim sem "er þú". Notalegt heima fyrir, og smart á skrifstofunni.

Skapaðu heim sem "er þú"! Vá. Veit ekki hvort er hallærislegra, hugsunin á bak við þetta eða kauðalegt orðalagið. Toppurinn er auðvitað að koma með yfirlýsingu sem sker sig úr og greinir þig jafnfram frá almúganum.

Fólk sem kemur með yfirlýsingar sem skera sig úr.

Ímyndið ykkur mann sem segir eftirfarandi setningu hátt og snjallt á aðalfundi Glitnis:
"Það er bremsufar í brókinni minni"

eða þetta sem konan segir á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins.
"Ég skil ekki helminginn af orðunum sem þið notið, en mér finnst rosalega gaman hérna."

Nú eða kona sem stígur upp á borð í hléi í Óperunni og kemur með yfirlýsingu sem sker sig úr:
"Í hvert skipti sem ég hnerra þá pissa ég ofurlítið á mig. Mér finnst ég ekki verri manneskja fyrir vikið."

75% íþróttafréttamanna hafnað!

Það er nöturleg niðurstaða úr þessum kosningum hversu staða íþróttafréttamanna er slæm á Alþingi.
Af þeim fjórum íþróttafréttamönnum sem voru í vænlegri stöðu á listum, er aðeins 25% veitt brautargengi á meðan 75% þeirra mega bíta í það súra epli að vera fórnað fyrir hagsmuni þeirra sem hafa aldrei verið íþróttafréttamenn.
Þetta er kunnuglegt valdatafl og það er líkt og ósýnilegt glerþak haldi íþróttafréttamönnum frá því að ná árangri og lá
ta rödd sína heyrast.

Eini íþróttafréttamaðurinn sem náði kjöri er þessi:Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. íþróttafréttamaður

Þessum íþróttafréttamönnum var hins vegar hafnað af gömlu valdakerfi anti-sportista þar sem ráðum er ráðið í reykfylltum bakherbergjum en ekki í björtum höllum, upplýstu myndveri eða á víðáttumiklum leikvöngum.


Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður



Kristrún Heimisdóttir, fyrrv. íþróttafréttamaður



Ómar Ragnarsson, fyrrv. íþróttafréttamaður


Þessu verður að linna og Sportistafélag Íslands vill leggja sitt af mörkum. "Sportisti er manneskja sem gerir sér grein fyrir því að staða íþróttafréttamanna er ekki sú sama og annarra manna og vill gera eitthvað í."
Það er ekki nóg að segjast bara hafa áhuga á íþróttum eða vera jákvæður gagnvart íþróttum. Við eigum ekki að vera hrædd við orð. Inn við beinið erum við flest sportistar, við þorum bara ekki að nota þetta orð vegna þess að miklir fordómar beinast gegn því, gamlar staðalmyndir um heimskan sportista sem hugsar ekkert andlegt og er jafnvel á móti bókum og hugarleikfimi. Þannig þarf þetta ekki að vera. Og Sportistafélag Íslands ætlar að breyta því.