þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Peningar

Tónlistarhús 12 milljarðar
Hátæknisjúkrahús 50 milljarðar
Héðinsfjarðargöng 6 milljarðar

Það er merkilegt hvað menn geta verið rausnarlegir fyrir annarra manna pening.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Fjölmiðlar falla á Durex prófinu

Reglulega er lagt próf fyrir íslenska fjölmiðlamenn, þegar Durex sendir út fréttatilkynningar um kynlífskönnun sem kennd er við smokkaframleiðandann. Á hverju einasta ári verða síðan íslenskir lesendur eða áhorfendur vitni að því þegar íslenskir miðlar falla unnvörpum á þessu prófi.

Í fyrra var sagt frá því að íslenskar konur ættu kvenna mest af hjálpartækjum ástalífsins. Í ár hefur þegar verið sagt frá því að fjörutíu prósent landsmanna haldi framhjá maka sínum, nær helmingur landsmanna eigi klámmynd í fórum sínum og að Íslendingar byrji fyrstir allra þjóða að sofa hjá. Miðlar og þættir leggja síðan út af þessum niðurstöðum, sérfræðingar eru kallaðir til svo fást megi skýringar á þeim, hagyrðingar hringja inn blautlegar tækifærisvísur og hlustendur hringja inn með vandlætingartón eða smástelpuflissi yfir því að geta sagt titrari í beinni útsendingu.

Prófið er fólgið í því að átta sig á því að þessi skemmtilega kynningaraðferð Durex hefur ekkert með staðreyndir að gera og segir okkur jafn lítið um kynlíf Íslendinga og Passíusálmar Hallgríms. Þeir sem taka þátt í könnuninni eru nefnilega fólk sem af eigin hvötum fer á vef smokkaframleiðandans og fyllir út könnunina og segir sjálft til um aldur, kyn og aðrar mikilvægar staðreyndir. Fagmenn í skoðanakönnunum hrista hausinn og dæsa en hafa fyrir löngu gefist upp á því að vekja athygli á kolvitlausri aðferðafræði.

Langflestir fjölmiðlamenn vita betur en svo að það sé eitthvað að marka þessa könnun. En freistingin til að birta krassandi tölur og kitlandi hálfklám er bara of mikil til að fjölmiðlungar standist hana og skottuvísindin eru því birt án minnsta fyrirvara um uppruna eða áreiðanleika.

Niðurstaðan í hæfnisprófi Durex fyrir íslenska fjölmiðla virðist vera þessi: Fjórða valdið, sem tekur sjálfstæði sitt og óskeikulleika oft ansi hátíðlega, má fara með staðlausa stafi og hreint skrök, ef það snýst um kynlíf og að hægt sé að flissa.

Eru þá ekki bara allir sáttir?

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Klám með kvöldmatnum

Það bregst ekki að í hvert skipti sem Stöð 2 eða sjónvarpið birta fréttir um hneykslanlegt klám eða súludans þá nota þeir tækifærið og sýna eins mikið af klámi og súludansi og þeir mögulega geta.
Fróði gefur út klámblaðið B&B, pakkar því inn í ógagnsætt plast og selur það þeim sem eru eldri en 18 ára.
Fréttamaður 365 miðla hefur hins vegar fyrir því að sækja blaðið, rífa utan af því og bera sem flestar svæsnar myndir beint inn á heimili landsins þar sem fjölskyldur sitja í sakleysi sínu við kvöldverðarborðið. Það skiptir engu í þessu samhengi hvort svertir hafi verið litlir blettir á myndunum eða að "varað" hafi verið við klámfengnum myndum í fréttinni. Þetta er "titillation" í sinni verstu mynd, það er verið að gæla við klámhvatir manna, og það er engin hindrun, ekkert verslunarborð sem standa þarf við, ekkert plast sem rífa þarf utan af, engin ákvörðun sem neinn þarf að taka um það að kaupa eða nálgast klám. Frétttastofa Stöðvar 2 dreifði klámi til fleiri einstaklinga með þessari einu frétt heldur en Bleikt og blátt gerir með einum árgangi.
Þegar það bætist síðan við að sama fyrirtæki dreifir síðan klámi í gegnum Digital Ísland þá verður málið enn hallærislegra fyrir vikið.

Fjármálalæsi?

Hvers vegna þurfa ýmsir og þar á meðal uppeldisstéttir alltaf að búa til svona asnaleg orð? Orð sem hljóma eins og þau séu búin til í nefnd? Látum vera þótt menn finni ný orð um eitthvað sem ekki hefur verið til áður en þegar verið er að klæða gamla og góða hugsun í nýjan búning til að þjóna pólitískri rétthugsun þá fæ ég grænar.
Orðið "fáviti"hefur til dæmis verið á hraðferð á flótta undan pólitískri rétthugsun í marga áratugi. Því var breytt í þroskaheftur til þess að þjóna tíðarandanum, síðan í þroskahamlaður held ég og gott ef ekki misþroska á kantinum. Svei mér ef ekki komu önnur orð á milli. Eins og fáviti er í raun fallegt orð, sá sem fátt veit.
En það var samt ekki málið. Málið núna er orðskrípið "fjármálalæsi". Þetta er dæmigert skandínavískt uppeldisorð sem er samið af félagsfræðingum á vinstri kantinum sem þora ekki að nota gott og gilt íslenskt orð sem er "peningavit". Reynið að segja mér að það sé einhver önnur merking í þessu.