þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Áfram KR?

Ég hef búið í Vesturbæ í mörg ár og er að ala þar upp börn. Ég sé það alveg fyrir mér að ég sendi börnin mín í fótbolta þegar fram líða stundir og þá er eðlilegast að staðurinn ráði og Frostaskjól verði fyrir valinu. En ...ég hika.

Ég hika vegna þess að andrúmsloftið í kringum liðið er með þeim hætti að ég er ekkert viss um að mig langi til að mín börn gangi inn í það.
Ég hika vegna þess að rembingurinn hefur verið svo mikill, úthaldsleysið svo algjört að þjálfarar eru reknir á miðju sumri, hvað eftir annað.

Leikmenn hafa komið og farið, þjálfarar hafa komið og farið og áhorfendur hafa verið með eða á móti. En samt hefur alltaf komið reglulega upp þessi staða, árangur er ekki nægur og þjálfaranum eða leikmönnunum er kennt um.
Eini fastinn í Frostaskjóli hefur verið stjórn félagsins sem er ábyrg fyrir að skapa þá umgjörð um starfsemina að þar þrífist blómlegt og skemmtilegt íþróttastarf. Hefur það tekist? Sem áhugamanni og utan frá séð sýnist mér ekki. Það er einhver knattspyrnuleg fyrirtíðaspenna í loftinu sem veldur því að það sem vantar fyrst og fremst er að hafa gaman af þessu.

"Þótt ég fyrirlíti skoðanir þínar..."

Íslenskir fjölmiðlar eiga oft erfitt með að setja staka atburði í þjóðfélaginu í stærra samhengi, hvað þá tengja þá stærri spurningum um lýðræði, lögfræði eða grundvallarmannréttindi.
Eitt slíkt dæmi eru viðbrögð lægst settu handhafa ríkisvaldsins við hinum og þessum mótmælum síðustu misseri eða ár hérlendis.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig erlendar löggur fást til þess að sveifla kylfum gegn friðsömum mótmælendum og berja þá meira og minna í spað, þrátt fyrir að af þeim stafi engin ógn. Þetta hefur sést í fréttamyndum frá Chile eða öðrum suður-amerískum bananalýðveldum í gegnum tíðina.
Nú er ég farinn að skilja þetta aðeins betur, vegna þess hvernig dagfarsprúðir íslenskir lögreglumenn haga sér við nokkra ræfilslega mótmælendur.
1. Mótmæli á 17. júní í miðbæ Reykjavíkur: " Það er ekki við hæfi að mótmæla á þessum degi! sögðu menn. 17. júní er afmælisdagur Jóns Sigurðssonar sem sagði hin fleygu orð Vér mótmælum allir. Alveg er ég viss um að Danir hafi sagt að það hafi ekki verið við hæfi að mótmæla á þeim stað og stund.
2. Falun Gong - lögreglan gerðist ansi útsjónarsöm við að finna nýjar leiðir fyrir kínverskan fjöldamorðingja - til þess að hann þyrfti ekki að sjá gula borða. Stakur lögregluþjónnn sló til mótmælenda sem frömdu þann glæp að líma fyrir munn sinn og halda höndum á loft í táknrænum mótmælum.
3. Virkjun - hér byrjar ballið fyrir alvöru. Allt tiltækt lið á Austurlandi lagði niður löggæslustörf til þess að gera upptæka spreybrúsa og keðjur. Við tjaldbúðir voru þeyttar sírenur í morgunsárið, í bænum var mómælahippum á húsbíl veitt eftirför... og til hvers? Mótmæli eru ekki bönnuð á Íslandi, það er ekki bannað að hafa skoðun, það er heldur ekki bannað að hafa vitlausa skoðun og halda henni hátt á lofti. Það er ekki bannað að vera á móti Perlunni þótt búið sé að byggja hana.
4. Stjórnarráð - tveir piltar príla upp á þak og skipta um fána. Lögreglan getur ekki heldur stillt sig um að taka á þessu máli með allri þeirri taktvísi sem einkennir fíl í postulínsverslun. Þeir skemma þakið og beita mótmælendur harðræði - og kenna þeim svo um allt saman. Og svo kemur aðstoðarmaður ráðherra og spinnur einhverja skröksögu í fjölmiðla til að láta þetta líta ver út.

Caveat:
Þótt það ætti ekki að koma málinu við þá er líklega rétt í andrúmi dagsins að taka það fram að ég er ekki hliðhollur málstað þeirra sem mótmæla virkjun.

Samhengi
Það hræðir mig þegar ég sé hvað lögreglumenn og embættismenn eru illa að sér í grunnhugsun mannréttinda.
Nýskipaður forstjóri útlendingaeftirlits, sem þó er lögfræðingur, gengst undir skilgreiningu yfirvalda á því hvað er óæskileg hegðun borgaranna, skilgreiningu sem er ekki studd stjórnarskrá eða lögum, heldur persónulegum skoðunum valdhafa og þeirra stofnana. Og á grundvelli þeirra persónulegu skoðana beitir hún sínu embætti af fullum þunga. Það er valdníðsla.

Mér verður um og ó þegar ég sé þjónkunina birtast í svona smáum málum, því hvað gerist ef sitjandi valdhafar gengju lengra í skilgreiningu sinni á því hvað er óæskileg hegðun?
Hvað ef andstaða við kirkjuna yrði einn daginn skilgreind sem óæskileg hegðun? Þar væri meira að segja hægt að styðjast við vafasamt ákvæði í stjórnarskránni.

Ríkisvald verður alltaf að láta einstaklinginn njóta vafans. Vald ríkisins og hins opinbera er einfaldlega svo gríðarlegt í samanburði við einstaklinginn - og umboð ríkisins til þess að skipta sér af málum einstaklinga er á svo veikum grunni.

Embættismannakerfi Íslands hefur alltaf verið veikt, líklega vegna skorts á hefð. Menn hafa alltaf átt of mikið undir kjörnum fulltrúum og fulltrúum framkvæmdavalds, bæði almenningur og embættismenn. Þess vegna haf embættismenn ekki fastan grunn til að standa á, grunn sem er staðfastari en svo að ein ríkisstjórn til eða frá geti farið að hnika honum. Prinsíp eru nefnilega ekki til að hafa spari. Rétturinn til að tjá skoðanir sínar verður að vera heilagur á landinu, og við verðum einfaldlega að taka fórnarkostnaði við slíkt lýðfrelsi, þótt það séu fimmtán mínútur af röngum fána á Stjórnarráðinu eða hippalegar tjaldbúðir á Austurlandi með spreybrúsum og keðjum. Eignaskemmdir á að sjálfsögðu að sækja til saka - en það segir mér engin að það séu mannslíf í hættu þótt Englendingur járni sig við payloader eða búkollu.

Ég veit alveg að íslensk lögga er ekki sveiflandi óeirðakylfum og berjandi menn til blóðs. En hafandi þá trú á prinsippum sem ég hef, þá læðist að mér sú óþægilega tilfinning að þetta sé ekki stigsmunur, heldur eðlis, að leggja mótmælendur í einelti, þeyta sírenur að morgni og dingla handjárnum framan í fólk sem hefur "annarlegar skoðanir". Þetta eru byrjunareinkenni valdníðslu. Og það stríðir gegn minni réttarvitund, sama hversu heimskulegum skoðunum hún kann að beinast.
Tilgangurinn helgar aldrei meðalið. Það er mitt prinsípp.

Eða þarf lögreglan að fara að velja sérstakar leiðir fyrir Halldór til þess að hann þurfi ekki að horfa upp á einhvern sem er ósammála honum?

mánudagur, ágúst 29, 2005

Hvaða mynd er ég?

Örn Úlfar samstarfsmaður minn er mikið að velta persónuleikanum fyrir sér.
Ég fylgi gjarnan í kjölfarið og geri slíkt hið sama. Hann reyndist vera Indiana Jones. Ég er hins vegar....

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Bláeygir miðlar

65 milljónir manna lásu fréttatilkynningu!
Þetta var fyrirsögnin yfir þvera forsíðu viðskiptablaðs Morgunblaðsins í síðustu viku.
Þar segir KOM (Kynning og markaður) að fréttatilkynningin þeirra um nýtt lottókerfi Íslenskrar getspár hafi verið lesin af 65 milljón manns á þremur dögum.
Þetta stakk mig á svo margan hátt og vegu - að ég neyddist til að númera tilfinningar mínar í garð þessarar fréttatilkynningar.

1. Hvers vegna vill nokkur PR maður að 65 milljónir Bandaríkjamanna lesi upplýsingar um lottókerfi sem á erindi við u.þ.b. 2000 fagmenn um víða veröld? Allt í lagi, verum rausnarleg - segjum 10.000 fagmenn um víða veröld?. Athugið að hér er ekki verið að tala við almennan lottóspilara - heldur þá sem eiga og reka lottó og þá sem sjá um að setja upp kerfi til lottó- og getraunaspilunar.
2. 65 milljónir manna er gríðarlega há tala. Vinsælasti þáttur Bandaríkjanna, Desperate Housewives, státaði af 21 milljón áhorfenda. Er lottókerfið þrefalt meira spennandi en konurnar við Wisteria Lane? 62,5 milljónir horfðu á úrslitaeinvígi bandarísku forsetakosninganna í sjónvarpi. Fleiri virðast hafa áhuga á lottókerfinu.
3. Af þessum 65 milljónum voru 50 milljónir sem lásu þessa frétt á Yahoo Finance. Það vefsvæði er vinsælasta viðskiptafréttasvæði Bandaríkjanna. Þangað koma heilar tíu milljónir manna í hverjum mánuði. Hvernig var hægt að kreista 50 milljónir manna út úr 10 milljón manns og það á aðeins þreumur dögum?
4. Gæti það verið að PR maður og amk. tveir blaðamenn séu ekki enn búnir að skilja muninn á því sem kallast "hit" og því sem kallast "unique visitor"? Ef þú ferð inn á forsíður mbl.is sem er amk. með 1 textaskrá, 20 gif myndir og 5 jpg myndir þá ertu strax kominn með 26 hit þegar forsíðan hefur opnast. Ef þú ferð á Moggann 2-3 á dag, smellir þar hingað og þangað í hvert skipti þá telst það sem 100 eða 1000 hit á dag.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

We'll have no trouble here!

Var að ljúka við fyrstu seríuna af snilldarþáttunum "The League of Gentlemen".
Frasar á borð við "This is the downstairs lavatory. We do not pass solids here" eru ´búnir að líma sig fasta á innanverðan heilann á mér og vilja ekki fara. Getur verið slæmt því ég er í miklum samskiptum við Englendinga þessa dagana og mér hættir oft til að missa út úr mér skemmtilega frasa úr skemmtilegum breskum þáttum í miðjum samræðum. Svona eins og þegar mikið var rætt um Borgarnes - the village um daginn og ég missti að sjálfsöðgu út mér eitthvert comment um "The only gay in the village." Til allrar hamingju þá skildu viðstaddir hvað ég var að fara - en það þarf ekki að vera ef ég skyldi skyndilega skipa virðulegum viðskiptavinum fyrir um umgengni á salerninu í Inntaki: We do not pass solids here!

Nokkrir fleiri frasar frá einangrunarsinnanum Edward Tattsyrup, proprietor of the local shop.

# What's going on? What all this shouting? We'll have no trouble here!
# His mind has been corrupted by colors, sounds, and shapes!
# Strangers would come to the shop [...] in gangs of one or two!
# You heard the man Tubbs. Get undressed.