fimmtudagur, janúar 26, 2006

Markverðir markverðir frá Lifrarpolli

Þeir eru nokkrir markmennirnir sem komið hafa við sögu Liverpool sem eiga séns, lítinn eða stóran, á því að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í vor.
Hér er listinn, en eins og ég tók fram þá eiga sumir kannski ekki mikinn séns.


David James - England


Sander Westerweld - Holland


Jerzy Dudek - Pólland


Brad Friedel - Bandaríkin


Jose Reina - Spánn


Chis Kirkland - England


Bruce Grobbelaar - S. Afríka


(Sko, ég sagði koma við sögu, ég sagði ekkert í markvörslu endilega. Brúsi gamli reddar ykkur miðum á svörtu skammt frá Repeerbahn í Hamborg. )

mánudagur, janúar 23, 2006

Fjölmiðlar falla á konuprófinu

Konum var EKKI hafnað í Garðabæ. Þrátt fyrir massívan áróður, frasafruss og stanslausa umfjöllun og þrátt fyrir að menn séu farnir að sneiða að höfnun kvenna í Garðabæ í aukasetningum og jafnvel þótt dálkahöfundar lepji þetta upp fullir vandlætingar, þá var konum ekki hafnað í Garðabæ. Það er ekki hægt að fá það út úr úrslitum prófkjörsins.
Jafnvel þótt menn vilji endilega spyrða allan kynflokkinn saman eins og þetta séu einhverjir angar á sömu lífverunni þá eru staðreyndirnar samt þær að í fimm efstu sætin fengu konur 47% á meðan karlar fengu um 53%. Ef það er höfnun þá er ég Gloria Gaynor. Ef (fjölmiðla)menn kynnu að reikna, nei ef þeir kynnu að lesa þá gætu þeir komist sjálfir að þessari niðurstöðu og hætt að éta bullið upp hver eftir öðrum.
En úrslitin koma eiginlega vel á vondan því "útreið" kvenna í prófkjörinu er einmitt bein afleiðing af áróðrinum en ekki vegna þess að hann hafi ekki borið árangur. Fasískt og feminískt þenkjandi meðlimir í pólitíska réttrúnaðarsöfnuðinum hafa einmitt hamrað á því að konur séu hópur en ekki einstaklingar og þess vegna er erfitt fyrir konu að skapa sér sérstöðu í svona prófkjöri. Kjósendur velja sinn karl, vegna þeirra einstaklingskosta sem þeir eru búnir. Og í stað þess að gera síðan eitthvað random eða sérvalið niður listann, þá passa sig allir á því að setja nú "einhverja konu" sem fyrst á eftir karlinum sem var valinn, meira að segja þeir sem þekkja ekkert til þeirra kvenna sem eru að bjóða sig fram. Afleiðingin verður sú að kona á erfiðara með að standa upp úr öðrum konum, vegna þess að konur eru jú hópur með sameiginlegan vilja, reynsluheim og þarfir, en ekki einstaklingar með sjálfstæða hugsun og karakter... Eða hvað?

Söngur og spilerí

Sú var tíðin að ungir tónlistarmenn sem léku í bílskúrum eða heima í herbergi máttu bíða eftir frægð og frama á árlegum Músíktilraunum í Tónabæ. Nú bjóða hinar víðu lendur hins alþjóðlega Internets skyndifrægð á rokk.is og innsendingar láta ekki á sér standa. Rakst þar á framlag frá ungum tónlistarmanni sem er að birta frumraun sína.
Innleggið ætti að skýra sig sjálft.
Drengurinn á annað innlegg þarna sem finnst með því að smella á nafnið hans í listanum inni á rokk.is
Undirritaður er ekki dómbær á gæði innleggsins, ég brosti amk út í annað, en sá bróðir minn sem helst hefur gefið sig að tónlist kvaðst hafa fengið flashback nokkurt við hlustun.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Leikmaður fæst gefins


Sóknarleikmaður í knattspyrnu selst mjög ódýrt, eða fæst hreinlega gefins, ef kaupandi nennir að sækja hann á heimilisfangið Anfield Road, Liverpool, UK.

Ath. einnig er inni í myndinni að borga nokkra upphæð með leikmanninum, en aðeins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru þau að hann komi aldrei, endurtek, aldrei, nær knattspyrnuliðinu Liverpool FC en sem nemur 50 metrum og alls ekki í íþróttabúningi eða með knattspyrnuskó á fótum.

Nánari lýsing á leikmanni:
Hæð: 1,85
Þyngd: 75
Þjóðerni: Franskur
Gegnir nafninu Djibril Cisse en líklega aðeins utan vallar því innan vallar er hann daufdumbur, þe. bæði blindur og heyrnarlaus.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Ertu ekki hress? Rosalega ertu brúnn!

Sylvía Nótt átti að vera paródísk sýn á heimska, sjálfsupptekna og íslenska Paris Hilton týpu. Það er ekki markaður fyrir Sylvíu það lengur því raunveruleikinn hefur reykspólað fram úr eftirhermunni. Raunveruleikinn heitir Brynja Björk og þátturinn er Partý 101. Setningar sem munu lifa með þjóðinni úr þessari seríu eru á þessa leið: Nei, hæ! Ertu ekki hress? Rosalega ertu brúnn! Upphrópunarmerkin eru ekki stílbragð af minni hálfu heldur eru allar setningar í þættinum sagðar með augljósu upphrópunarmerki. Og það er eitt með mál með upphrópunarmerki, þau virka bara í aðra áttina, þau heyrast bara en hlusta ekki, enda var blessuð kindin ekkert að hafa fyrir því að hlusta á svörin heldur jarmaði bara spurningarnar sínar um leið og hún japlaði á tyggjóinu.
Þátturinn er ömurlegur og mun án efa lifa góðu lífi á hnakkastöðinni Sirkus og það kæmi mér ekki á óvart þótt íslenskur druslugangur geti orðið að útflutningsvöru með þessum hætti.

Fleiri fleygar setningar úr menningarþættinum Party 101:
BB: Krúið er mætt!
BB: Eruð þið ekki í hrikalega góðri stemmningu!
BB: Ertu í góðu skapi!

BB: Hvað segir kallinn!
Viðmælandi: Heyrðu, erum við ekki hress eða hvað?
BB: Geðveikt hress!

BB: Hvar fáið allt þetta fokking fallega fólk sem er hérna inni!
Viðmælandi: Það er bara fallegt fólk hérna, við erum líka að gefa helling af Bavaría bjór, og við erum að gefa helling af vinningum og (tekur upp símann) og það er verið að hringja í mig (svarar í símann)...Halló!
BB: Það er allt að gerast!
BB: Oh mæ god, Hallgrímur er aldrei svona geðveikt bissí að hann getur ekki talað við uppáhaldsstelpuna sína...

BB: Djöfull ertu fokking tanned!
BB: Hvað segiði stelpur hvernig er kvöldið búið að vera!

BB: Hvað segiði gott strákar! Hvernig er kvöldið búið að vera!

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Nostalgía


"Nú er myndbandið við nýjasta lagið ykkar Nostralgía tekið á 16 millilítra filmu...." sagði japanskættaða sjónvarpskonan einu sinni. Nostalgía er vissulega góð en hún er reyndar ekkert í dag miðað við það hvernig hún var í mínu ungdæmi.
Arnar frændi notar liðbandaslitið til þess að skondra léttfættur niður Minningabraut (þrátt fyrir slitið liðband) og fylgjast allir heillaðir með.
Sjálfur sit ég undir óumbeðinni Bob Dylan kynningu í vinnunni og fæ að heyra heillandi upplýsingamola um t.d. kvenkenningu piltsins í laginu House of the Rising Sun.
Ég sit mitt á milli vinnufélaganna tveggja sem báðir dýrka Dylan og kemst hvergi. Mér líður svolítið eins og litla húsinu sem var nokkurn veginn á milli turnanna tveggja í New York enda eru félagarnir báðir vel yfir einn og níutíu á hæð. En aðflugið að 0220 flugbrautinni er beint yfir skrifstofuna þannig að enn er von og ég enda kannski með að vera stærstur á svæðinu eftir allt saman og þá verður sko ekki spilaður neinn Dylan. O nei.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Fjölmiðill fellur á fíkniefnaprófinu


Það er sama hvernig ég les þessa frétt - ég get ekki fundið upplýsingar sem renna stoðum undir þessar fullyrðingar um að blásaklausir borgarar séu í hættu.
Ungur maður öskrar á einhvern vegfaranda að drulla sér í burtu úr garðinum? Er það stóra vandamálið? Er það ekki bara nútíma útgáfa af "pillaðu þig af lóðinni?"
Smelltu á greinina til að fá stærri og læsilegri útgáfu.