Að hlaupa til dóma
Ein tæknileg útfærsla slíkra hleypidóma og fordóma er grófflokkunin, aðferð sem byrjar á setningu eins og "fólki má skipta í þrjá hópa, þá sem kunna að telja og þá sem kunna það ekki." Slík flokkun er ekki alltaf svona vitlaus eins og þessi hér á undan, því stundum má hafa gagn af henni. Eg notaði til dæmi slíka þrískiptingu til að útskýra myndlist í síbreytilegu nútímaþjóðfelagi í grein hér um daginn. Hér eru nokkur tilbrigði við stef.
Íslendingum má skipta í tvo flokka;
þá sem senda mynd af barninu/hundinum/feitu frænku eða ömmu í Séð og heyrt;
og þá sem gera það ekki.
Körlum má skipta í þrjá flokka;
þá sem nota ekki rakakrem,
þá sem nota rakakrem
og þá sem vita hvaða nafn rakakremið þeirra ber.
Konum má skipta í tvo flokka;
þær sem hafa sagt; "Karlar eru aumingjar"
og þær sem eiga eftir að segja það.
Þingmönnum má skipta í tvo flokka.
Þá sem eru svo innantómir að þeim tekst ekki að fela það
og hina sem geta falið það.
Fjölmiðlamönnum í ljósvaka má skipta í tvær fylkingar.
Það eru þeir ljósvíkingar sem hugsa bara um sjálfa sig og sínar skoðanir
og síðan hinir ljósvíkingarnir sem hugsa líka um skoðanir annarra á þeim sjálfum.