föstudagur, júní 24, 2005

Að hlaupa til dóma

Til þess að auðvelda mér að hugsa (sem er alltaf að verða erfiðara og erfiðara) hef ég gjarnan gripið til þægilegra hleypi- og fordóma. Þeir stytta mér oft leið að markinu, ég þarf ekki að hugsa hlutina eins djúpt og lengi heldur geti ég einbeitt mér að þeim hluta pælingarinnar sem mér líkar best við og mig langar mest að eyða tíma mínum í.
Ein tæknileg útfærsla slíkra hleypidóma og fordóma er grófflokkunin, aðferð sem byrjar á setningu eins og "fólki má skipta í þrjá hópa, þá sem kunna að telja og þá sem kunna það ekki." Slík flokkun er ekki alltaf svona vitlaus eins og þessi hér á undan, því stundum má hafa gagn af henni. Eg notaði til dæmi slíka þrískiptingu til að útskýra myndlist í síbreytilegu nútímaþjóðfelagi í grein hér um daginn. Hér eru nokkur tilbrigði við stef.

Íslendingum má skipta í tvo flokka;
þá sem senda mynd af barninu/hundinum/feitu frænku eða ömmu í Séð og heyrt;
og þá sem gera það ekki.

Körlum má skipta í þrjá flokka;
þá sem nota ekki rakakrem,
þá sem nota rakakrem
og þá sem vita hvaða nafn rakakremið þeirra ber.

Konum má skipta í tvo flokka;
þær sem hafa sagt; "Karlar eru aumingjar"
og þær sem eiga eftir að segja það.

Þingmönnum má skipta í tvo flokka.
Þá sem eru svo innantómir að þeim tekst ekki að fela það
og hina sem geta falið það.

Fjölmiðlamönnum í ljósvaka má skipta í tvær fylkingar.
Það eru þeir ljósvíkingar sem hugsa bara um sjálfa sig og sínar skoðanir
og síðan hinir ljósvíkingarnir sem hugsa líka um skoðanir annarra á þeim sjálfum.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Tungutækni

Það er dásamleg tímaeyðsla að finna góðar setningar í ensku, láta Google þýða þær á annað tungumál og aftur til baka. Komum að misþyrma jólalagi!

Enska
Jingle bells, jingle bells, jingle all the way. Oh, what fun it is to ride in a one horse open sleigh.

Þýska
Jingle bells, Jingleglocken, jingle completely. OH -, which fun it is to ride into an opened sleigh with horses.

Ítalska
Jingle the flange, flange of jingle, jingle all the sense. The OH, than divertimento it must guide in one sleigh open of a horse.
(Jingle all the sense? Just wait, I'll jingle the sense out of you!)

Franska
Tinkle the bells, bells of tinkling, tinkle all the manner. Ah, which recreation it must go up in an open sleigh of a horse.

Spænska
Cascabelee the bells, bells of the cascabeleo, cascabelee all the way. Oh, what diversion is to mount in sleigh open of a horse.

Japanska
The Jingle bell namely the jingle bell directly the jingle. The ど it is with the sleigh which 1 horse opened in the pleasure we should ride, Ohio state. (ath. þetta er bara BETA útgáfa af japönsku þýðingarvélinni. Þýðir það þá að hinar séu eins og þær eiga að vera?)

Kínverska
Jingle the sound bell, jingle the bell, jingle the sound possesses this way. Oh, what pleasure will it ride in 11 horses opens sleigh. (Hvaðan komu þessir tíu hestar allt í einu?)

Nútímalistakenningin 80-18-2

Nú gefst mér tækifæri til þess að opinbera nútímalistakenninguna mína sem ég nefni 80-18-2.
Sú kenning er á þessa leið:

80% þjóðarinnar er sá hluti sem vill ekki skilja og hefur engan áhuga á að skilja nútímalist. Þessi 80% hrista einfaldlega hausinn ef nútímalist ber fyrir augu sem er sjaldan enda koma þessi 80% og nútímalist sjaldan fyrir á sömu stöðunum. Þessi 80% eru ekki einu sinni neitt sérstaklega að skilgreina fyrirbærið "list", hvað þá "nútímalist", það nýtur þess sem það vill njóta og skammast sín ekkert fyrir að hafa engan áhuga á hinu.

2% er sá hluti þjóðarinnar sem lifir og hrærast í nútímalist, fer á sýningar, iðkar nútímalist, klingir glösum, veitir styrki, þiggur styrki, fer á tvíæringa, notar orð eins og tvíæringur, talar um nútímalist, skrifar um nútímalist, kennir nútímalist og lærir nútímalist. Það skoðar gubb og kúk og sæði úr öðru fólki og gengur ekki út í sjálfsvarnarskyni heldur segir "athyglisvert" hvert við annað, það skoðar olíutunnur með steypu í og segir "ögrandi", það hittir galleríista og pómó er ekki skammaryrði heldur gæluorð í þeirra eyrum.

18% er sá hluti þjóðarinnar sem telur sig kunna að meta list, vill njóta lista, hefur ekkert á móti því að láta ögra sínum viðteknu skoðunum og telur sig víðsýnt og menntað. En þessi 18% eru jafnframt sá hópur sem ætti að segja, en þorir ekki það ekki, að keisarinn sé ekki í neinum fötum. Þessi 18% þora ekki að missa það út úr sér að þetta sé rugl, bull og þvæla, að skítur annarrar manneskju sé úrgangur en ekki list, að keisarinn sé ekki aðeins í engum fötum heldur sé hann farinn að ganga örna sinn á almannafæri og kalla það list. Þau þora það ekki því þá kemur Stefán Jón Hafstein og segir að þau séu mestu plebbar sem hafa tjáð sig um list á Íslandi. Og þessi 18% vilja ekki vera plebbar, það eru bara þessi 80% sem eru plebbar. Ekki við. Við erum langskólagengin og menntuð.

Apamálverk

Ég ætlaði að skrifa eitthvað spekingslegt og djúpt um merkingu þess að menn kaupi apamálverk dýrum dómum en ég áttaði mig á því að mér finnst olía á striga eftir apa nær því að vera list heldur en gubb eftir ráðherradóttur og sæði eftir tengdason Íslands. Svo ég tali nú ekki um móttökustöð Sorpu sem Dieter Roth lét hanna á löngum tíma. Nú er ég búinn að opinbera mig sem mesta plebba sem hefur tjáð sig um list á Íslandi...nei annars, það er víst frátekið fyrir Ólaf Teit. Ok, ég pant vera næst-mesti plebbi sem hefur tjáð sig um list á Íslandi.

mánudagur, júní 20, 2005

Ekki ég...

Vegna þráláts orðróms vill undirritaður taka það fram að það var ekki hann (þ.e. ég) sem sullaði vatni á Tom Cruise. Ég neita því þó ekki að ég hefði gjarnan vilja gera honum eitthvað, en varla skvetta á hann vatni (hvað þá grænu skyri).
Helst mundi ég þó vilja beita Tom Cruise heiftarlegri þöggun, síðan mundi ég smætta hann, jaðra hann síðan og aðra hann og ef það dygði ekki til þá neyddi ég hann til þess að sitja málþing íslenskra feminista um kynjaða orðræðu.

laugardagur, júní 18, 2005

Sólin er farin að skína á ný

Ég er farinn að mála.

Manneskja óskast til gönguferða

Fullorðin og vel stæð manneskja, með fullu viti og góða heilsu óskast til gönguferða. Verður að hafa til umráða rúmgóðan og helst dýran einkabíl til að keyra á staðinn. Manneskjan verður að vera tilbúin að taka upp volgan kúk í plastpoka ef mér dettur skyndilega í hug að skíta á almannafæri. Ekkert er greitt fyrir þetta starf og búast má við nokkrum útgjöldum.

Rigning

Ef einhver segir í mín eyru að rigningin sé velkomin vegna þess að: "þetta sé svo gott fyrir gróðurinn" þá óttast ég að það gerist eitthvað hræðilegt.
Ég man ekki til þess að gróðurinn hafi eitthvað verið að kvarta. Ég man ekki til þess nokkurn tímann að gróðurinn hafi snúið upp tánum og drepist vegna skorts á rigningu.
Það á bara að rigna á nóttunni, ekki á daginn þegar ég er kominn í stuttbuxum upp í stiga með pensilinn í hendinni og málningu í fötu mér við hlið.
En ég brosi samt því mér líður bara ágætlega og ég veit ég verð kominn aftur af stað eftir smástund að mála. Bara ef enginn segir mér að þetta sé svo gott fyrir gróðurinn.

föstudagur, júní 17, 2005

17. júní

Frábær þjóðhátíðardagur er að kveldi kominn. Gamla fólkið er farið heim og unglingarnar taka völdin í miðbænum. Warriors! Come out to play!


Annars er ég orðinn svo heimakær hér við sjóinn að mér líður eiginlega alltaf best í garðinum mínum nýja fína! Best að setja inn eina mynd. . .
Keilir1
svo menn skilji hvað ég er að tala um. En ég verð bara að segja það hreint út. Lífsgæði mín og minnar fjölskyldu hafa tekið þvílíkum stakkaskiptum eftir að við komumst í fyrsta lagi í góðan og aðgengilegan garð við húsið, en ekki síður í þessa perlu sem Sörlaskjól er. Ægissíðan? Ha! ég hlæ. Ha ha ha ha! (svona óperuhlátur svipað og Il Pagliacci, alls óháð efninu þó :-)
En Sörlaskjól er nefnilega í fyrsta lagi ekki við hraðbraut, í öðru lagi er ekki hálfur bærinn á línuskautum þar og svo er skjól við Sörlaskjól!

Of miklar og óumbeðnar upplýsingar

Sumt fólk á það til að veita manni of miklar og óumbeðnar upplýsingar. Þar á ég við of miklar upplýsingar í líkingu við sundurliðarar hægðafregnir ef þú slysast til þess að spyrja einhvern hvernig hann hafi það svona almennt séð. Og síðan eru óumbeðnar í þeirri merkingu að ég bað ekki um neinar upplýsingar en fæ þær samt. Þar í flokki fara nú fremst þau Tom Cruise annars vegar og eilífðarfíflið Paris Hilton hins vegar. Mér finnst eitthvað sjúklegt við það þegar Tom Cruise þarf að tilkynna mér það óumbeðið á vefmiðlinum mínum að hann hafi beðið Katie Holmes í Eiffelturninum um morguninn. Mér er alveg sama. Bara endilega Tom. Biddu hennar eða hverrar sem þér sýnist. Mér er alveg sama. Ég hafði einu sinni áhuga á því að sjá þig leika en sá áhugi fer dvínandi með hverri fréttinni sem ég séaf þér. Fíflið Tom Cruise er farinn að þvælast alvarlega fyrir leikaranum Tom Cruise og ég sé eiginlega ekki lengur í leikarann. Mér finnst einhvern veginn eins og einhver hafi verið að deila með mér ánægjulegri klósettferð þegar bónorð frá París er komið á morgunverðarborðið hjá mér í Reykjavík örskömmu síðar. Sumt á bara ekki erindi til allra. Þarf ég virkilega að segja eitthvað um Paris Hilton? Segir hún ekki allt sjálf? Ég endurtek bara þá hugmynd mína að markaðssetja Ísland sem "Paris Hilton Free Zone"! Hér væri allir miðlar ritskoðaðir, sjónvarpsstöðvar sendar út með töf til þess að klippa burt allar tilvísanir, myndir og komment um eða frá Paris Hilton. Ég er sannfærður um að fjöldi Bandaríkjamanna væri til í að eyða tveimur vikum eða svo á góðum stað þar sem þessu fyrirbæri mundi aldrei bregða fyrir. Aldrei.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Góðar minningar ...æfingalega séð

"Valsmenn eiga góðar minningar úr Valsheimilinu, bæði æfingalega séð og úr leikjum."

Viðtal, svona sjónvarpslega séð, við fyrrverandi leikmann Vals, 15. júní 2005

Ég mótmæli mótmælum

Ef skyrgræningjarnir hefðu látið nægja að sulla á dauða hluti, skjávarpa, tjöld og tölvur þá væri ég ekki ósáttur við þau. Ósammála, vissulega, en ég gæti skilið þau. En ég er alltaf ósammála því að beita einhvern ofbeldi sem ógnar þér ekki. Og ég kalla það ofbeldi gegn einstaklingi að sulla á hann grænu skyri. Ekki dauðans alvöru ofbeldi svo sem, en samt ofbeldi. Allir sem ekki ógna lífi eða limum annarra eiga rétt á að þeirra frelsi sé virt og að líkami þeirra sé látinn í friði. Sú frekja að telja hugmyndafræði sína það merkilega að hún gefi þér rétt til að beita aðra einstaklinga ofbeldi er einmitt undirrót að flestum óhæfuverkum á alþjóðlegum vettvangi. Nýgrænir eru ekkert skárri að þessu leyti.
Ég er sem sagt á móti svona mótmælum og og er að velta því fyrir mér að sulla tjöru á þá sem sletta skyri. Mér þætti ólíklegt að þau mótmæli því - þar sem þau hafa gefið fordæmi.

En...og það er stórt en. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir eina útlendingnum í hópnum sýnir tvennt sem er að hérlendis. Annars vegar virðingarleysi landans gagnvart tjáningarfrelsinu og hins vegar fordóma okkar gagnvart útlendingum. Hraðari og harðari viðbrögð við aulalegum skyrslettum á alþjóðlegri ráðstefnu en við hrottaskap og meiðingum. Í hjarta sínu eru ábyggilega margir sáttir við að helv. útlendingurinn sem vogar sér að skipta sér af okkar málum er kominn í fangelsi. Réttarmorðið á Brian Grayson var dæmi um það sama á sínum tíma. Hann átti ekkert með það að taka íslenskt barn og fara með til útlanda.

Svei mér þá.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Vafasamir samstarfsmenn

Fór í sólbaðsverð á Austurvelli í gær með samstarfsmönnum og boðaði þangað spúsu mína. Líklega eins gott fyrir hómófób að hafa eiginkonuna meðferðis þegar samstarfsmennirnir panta sér Orange Mocha Frappuccino og drekka hann með röri!
Þetta er ekki metró - þetta er hómó!

Er þetta viðeigandi?

Ég sá í morgun auglýsingu þar sem Blóðbankinn bauð til grillveislu. Er ekki eitthvað rangt við þetta?

mánudagur, júní 13, 2005

Hvaða leiðtogi ert þú?

Örn Úlfar segist vera Einstein í sínu bloggi - þ.e. þegar hann kannaði það hvaða leiðtogi hann væri.
Ég kom ekki alveg svo vel út:


Global warming er rangnefni

Það er búið að vera skítaveður í mánuð og þegar sólin lætur loks sjá sig í meira en 10 stiga hita - byrja menn að jarma um global warming.
Global warming er held ég rangnefni. Öll sú blessaða umræða sem nær jafnframt til fuglaflensu, nýtt AIDS, háspennumöstur í íbúðabyggð, geislun frá farsímum, hryjuverkaógnin, jöklabráðnun, flóð, og ég veit ekki hvað, gengur eiginlega bara út á það að segja við fólk á hverjum degi: Be afraid, be very afraid! Þú gætir dáið!
Það er tvennt sem veldur þessu endurteknu dómsdagsspadómum: Annars vegar eðli fjölmiðla en þeir eru einnmitt þannig vaxnir að skilaboð af þessu tagi henta afskaplega vel til uppsláttar einn daginn og eru jafnvel gleymd þann næsta. Fátt vekur fólk eins vel og þeirra eigin dómsdagur. Hin ástæðan er síðan fjármögnun vísinda, en þar fer fram mikið kapphlaup vísindamanna til að sanna niðurstöður sem verða að vera athyglisverðar og hafa áhrif á sem flesta til þess að hægt sé að tryggja næstu umferð fjármögnunar.
Þetta fyrirbæri í heild sinni ætti auðvitað að heita Global warning.

Af "frábærum" sigri á Möltu.

Svona áður en menn missa sig yfir árangri íslenska liðsins í knattspyrnu langar mig að minna aðeins á það við hvers konar lið við vorum að spila.

27/05/04, Dreisamstadion - Freiburg, Germany

Friendly Match

Germany vs Malta 7-0


18/08/04, Toftir - Faroe Islands

Friendly Match

Faroe Islands vs Malta 3-2


04/09/04, National Stadium - Ta' Qali

Malta vs Sweden 0-7


Þessi leikir fóru allir fram á síðasta ári. Eru menn enn sannfærðir um að þetta hafi verið eitthvað annað en skylduverk að vinna þetta dvergríki (þ.e. dvergríki, svona "knattspyrnulega" séð)

föstudagur, júní 10, 2005

Liverpool missti af tækifærinu

Besta knattspyrnulið í heimi, Liverpool FC , missti af gullnu tækifæri til þess að vera óskoraður Evrópumeistari í tvö ár þegar þeim var "leyft" að verja titil sinn í næstu keppni. Ef þeim hefði ekki verið veitt þetta leyfi þá hefði nýr meistari átt erfitt með að fagna mikið á meðan síðasti meistari hefði enn ekki verið skoraður á hólm.

Áfram Liverpool!

"Svona íþróttafréttalega séð"

Það er rétt að taka það fram að tilvitnanir í íþróttafréttir DV hér að neðan - í bloggi frá 9. júní, eru ekki aðeins ekta tilvitnanir frá íþróttadeild DV - heldur eru þær allar úr einni og sömu greininni um Lance Armstrong hjólreiðakappa, "manninn sem skakið hafði heiminn". Þessi merkilega grein birtist fyrir einhverjum mánuðum síðan.

Og nú er verið að tala um Bláa lónið og lækningamáttinn í fréttum - "það er eitthvað í vatninu" segir sérfræðingurinn. Síðast þegar ég heyrði þessa setningu var það í mynd með Juliu Roberts og Albert Finney sem hét Erin Brockovich.

Í hverju ætlar þú að vera?

Blogga lítið í dag - annan dag í bloggi vegna annarra anna. Annarlegra anna. Bærinn spyr bæinn; "'Í hverju ætlarðu að vera?" og allir spenntir.
Með öðrum orðum er að fara á Mosaic tískusýninguna í Laugardal.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Little Britain serían

Get ekki stillt mig um að benda áhugamönnum um Little Britain þættina að kaupa sér næsta eintak af Vogue hvar geta mun að líta tískuþátt með hinni yndislegu unglingsstúlku Vicky.


Annars er Little Britain serían með heimasíðu.
Heimasíða Little Britain seríunnar.

Gaman

Ég þarf að finna mér eitthvað á hverjum degi til að tala fallega um, svona til mótvægis við allt tuðið sem ég hef tileinkað mér í gegnum tíðina.
Í dag ætla ég að tala vel um konuna mína.
Hún er fallegasta konan sem ég hef hitt og á aðeins það besta skilið.
Hún hefur haft góð áhrif á mig, ekki síst með því að skora á hólm svo margt sem ég hef álitið meitlað í stein og óumbreytanlegt. Til dæmis hefur hún kennt mér kostinn við að þegja í stað þess að velja alltaf að segja :-) Og hún hefur lagt sitt af mörkum til þess að kenna mér að það er EKKI bara spurning um HVAÐ maður segir, stundum snýst þetta um HVERNIG ég segi það og ekki síður HVENÆR. Og það er ekkert smá afrek þegar ég á í hlut.
Ég elska þessa konu ekkert smá, eins og sumir hefðu sagt.

"Maðurinn sem hafði skakið veröldina"

(Íþróttafrétt úr DV sem ég er enn jafn hrifinn af)

"Hjólreiðagarpurinn Lance Armstrong á í stöðugu höggi að sækja vegna meintar lyfjanotkunar."
"...eru óprúttnir menn sem vilja koma honum í koll"
Yfirburðirnir...eru engum líkir og segja margir að þeir eigi ekki við eðlileg rök að styðjast"
"...hann hefði vaknað ... við það að einhverjir óprúttnir náungar væru að planta ólöglegum efnum fyrir á hótelherbergi hans"
"..fyrir einstæðan árangur sem verður líklega aldrei leikið eftir."
"eftir að hafa gengist undir ítarlega geislameðferð"
"maðurinn sem hafði skakið veröldina...og valdur af einum mesta skandal"
"hefur Armstrong verið ötull talsmaður samtaka sem snýst að fórnarlömbum krabbameins"

Þetta er yndisleg frétt - svona "íþróttafréttalega séð."

Skyndihjálp og skynsemi

(Gamall póstur úr tuðskúffunni sem fór aldrei neitt á sínum tíma)

Tvisvar á stuttum tíma les ég í blöðum að kornung börn hverfi á bólakaf í vatn eða sjó.

Ég er glaður vegna þess að börnin eru á lífi og ég vona sannarlega að þau jafni sig að fullu. Sem faðir geta ég gert mér í hugarlund þá angist og kvöl sem fylgir því að óttast um líf barnsins síns. Ég vil ekki meiða foreldrana með þessu bréfi og ég viðurkenni að ég veit ekki hverjar aðstæður voru umfram það sem nefnt var í fréttinni. En það var einmitt fréttin sem varð til þess að ég skrifa þetta bréf því mér finnst eins og skautað hafi verið fram hjá afskaplepa mikilvægu atriði í þessum atburðum. Í báðum tilfellum fær fullorðið fólk lof og prís fyrir að bjarga börnum – en hvergi er á það minnst að það hafi jafnframt verið fullorðið fólk sem stefndi lífi barnanna í hættu með sínum ákvörðunum og athöfnum. Skyndihjálparkunnátta er góð og blessuð en það er fátt sem kemur í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi og það er fátt í fréttinni sem bendir til þess að hún hafi verið við stjórnvölinn.

Það er munur á því að koma í veg fyrir slys eða að koma í veg fyrir möguleikann á slysi. Í öðru tilvikinu treystir þú á að aðgát og nærvera komi í veg fyrir slys, en í hinu tilvikinu skipuleggur þú aðstæður og athafnir á þann veg að það skapist ekki hætta. Ef börn leika sér á eldhúsgólfinu og þú þarft að færa súpupottinn á milli borða er tvennt til ráða. Þú getur fært pottinn og reynt að gera það varlega. Þá ertu að reyna að koma í veg fyrir slys. En þú getur líka fjarlægt börnin úr herberginu og síðan fært pottinn. Þá hefur þú komið í veg fyrir möguleikann á slysi.

Enginn ætlar sér að hætta lífi barnanna sinna, ekki frekar en það er markmið einhvers að pakka börnunum sínum inn í bómull og leyfa þeim ekki að reyna sig á neinn hátt. Einhvers staðar þarna á milli er gullinn meðalvegur sem hlykkjast eftir mismunandi aðstæðum og atburðum. Umferðarreglurnar eru því ekki altækar á þessum vegi en leiðarljósið hlýtur að vera heilbrigð skynsemi.

En ég ætti samt að drífa mig á skyndihjálparnámskeið.

Glerveggurinn

Glerþakið

Glerþakið er hún nefnd þessa ósýnilegu hindrun í vegi þess að konur nái á toppinn á sínum vinnustöðum. Ég hélt því einhvern tímann fram í grandaleysi að menntaður og klár einstaklingur þyrfti ekki að láta neitt stöðva sig annað en eigið val. En mér var fljótt gert ljóst að þetta væri ekki spurning um einstaklinga heldur konur sem undirokaðan hóp og rótgróin einkenni á karllægu samfélagi. Það snýst sem sé ekki um ábyrgð hvers einstaklings fyrir sig að sækja þann rétt og þau tækifæri sem viðkomandi ber með réttu, heldur ábyrgð hópanna, karla og kvenna, gott ef ekki þjóðfélagsins í heild. Og eftir því sem konur eru meira menntaðar og nær miðbæ Reykjavíkur, því meiri líkur virðast vera á því að þær verði fyrir barðinu á hróplegu misrétti feðraveldisins.

Glerveggurinn
Ef við látum hins vegar þessi alvarlegu vandamál háskólakvennanna liggja á milli hluta í smá stund, þá vaknar hjá mér önnur spurning.
Hvað er það sem stoppar konur í því að fara úr húsi og setjast upp á malbikunarvél, að vinna fyrir sér með skóflu og haka, að sækja sorp heim að húsvegg til að sjá sér farborða, að skera fisk úr netum, að leggja línur og rör í skurði, að fóðra ræsi undir götunni eða að slá upp steypumótum klædd í útigalla? Hvað hefur komið í veg fyrir að konur fylli þessi störf líkt og þær eru að fylla bekki háskólans? Þessi hindrun telst líklega frekar veggur en þak, en sá veggur er vísast líka ósýnilegur og hlýtur því að kallast glerveggur.

Þær háskólamenntuðu konur, og vissulega nokkrir karlar, sem eru svo dugleg að nota orð eins og “kynjuð orðræða” og “kynjagleraugu” hafa ekki rætt þennan glervegg svo ég muni. Varla merkir jafnrétti að konur sæki einungis fram á sumum stöðum en ekki öðrum?

Mörg smörrebrödsráðstefnan hefur verið haldin um glerþakið, en enn hef ég ekki séð svo mikið sem einn súpufund um glervegginn. Er ekki örugglega von á slíkum fundi?

Og ég bíð…
Og nú hef ég skrifað þetta bréf og bíð bjartsýnn eftir svari. Vinur minn, sem er svartsýnismaður, á hins vegar alls ekki von á því að ég fá málefnalegt svar við þessari hugleiðingu. Hann býst frekar við því að mér verði sagt að ég skilji ekki umræðuna, ég sé að tala á röngum forsendum, ég sé ekki með rétt gleraugu, ég sé hluti af gamla feðraveldinu eða með öðrum orðum að mér verði sagt með einhverjum hætti; skiptu þér ekki af þessu og láttu fagmennina um að ræða þetta.

Skúffan orðin full

Þegar skúffan mín var orðin full af tuði ákvað ég að deila þessum hugrenningum bara með umheiminum. Ég hef haft þann sið að hripa niður mínar prívat pælingar um opinber mál, fréttir, fólk og furður heimsins - en í stað þess að senda það til birtingar þá hef ég einfaldlega vistað greinarnar og gleymt þeim - eða geymt þær eins og raunin virðist ætla að verða.

Mér er nokk sama hvort einhver les. Þetta er svona semi-public prívat pæling ef það meikar einhvern sens. Lofa engu um tíðni, lofa engu um innihald. Þetta er bara svona mitt.